Meðfylgjandi eru kröfur um loftræstingu íbúðarhúsnæðis, en þetta eru kröfur eftir breytingar(1173/2012) á reglugerð 112/2012.

Íbúðarhús má loftræsa með náttúrulegri loftræsingu, vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja.

Tryggja ber að eftirfarandi loftskipti í íbúðarhúsum séu möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar:

Öll íverurými skulu loftræst þannig að magn fersklofts sem berst til rýmis sé minnst 0,3 l/s á m² gólfflatar á meðan rýmið er í notkun og minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar meðan rýmið er ekki í notkun. Jafnframt skal tryggt að magn fersklofts sem berst til svefnherbergis sé aldrei minna en svo að það samsvari 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið er í notkun.
Herbergi þar sem ekki er gert ráð fyrir stöðugri viðveru er þó heimilt að loftræsa þannig að magn fersklofts sé minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar.
Útsog úr eldhúsi íbúðar: 30 l/s.
Útsog úr baðherbergi íbúðar: 15 l/s.
Útsog úr minni snyrtingum: 10 l/s.
Útsog úr stökum geymslu- eða kjallaraherbergjum þar sem ekki er stöðug viðvera: 0,2 l/s á m² gólfflatar.
Útsog frá þvottaherbergi einnar íbúðar: 20 l/s.
Sameiginlegt þvottaherbergi með samnýttum þvottavélum fyrir 2 íbúðir eða fleiri: 30 l/s á hverja þvottavél.
Stigahús: 17 l/s.
Sorpgeymslur: 0,6 l/s á m², þó að lágmarki 20 l/s.
Miða skal við að íbúðir aldraðra og sérhæfðar íbúðir fatlaðra séu í notkun allan sólar­hringinn.